Erlent

Íhugar að draga framboð sitt til baka

Morgan Tsvangirai hefur ítrekað verið handtekinn undanfarnar vikur í tengslum við forsetakosningarnar.
Morgan Tsvangirai hefur ítrekað verið handtekinn undanfarnar vikur í tengslum við forsetakosningarnar. MYND/AP

Morgan Tsvangirai, forsetaframbjóðandi og leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins MDC í Simbabve, íhugar nú að draga framboð sitt til baka en seinni umferð forsetakosninganna fer fram þann 27. júní.

Fram kemur á fréttavef BBC að flokkurinn greini frá því á mánudag hvort Tsvangirai verði í framboði. Þar kemur enn fremur fram að þrýst hafi verið á leiðtogann að draga framboðið til baka vegna ofbeldisöldunnar sem gengið hefur yfir landið að undanförnu.

MDC fullyrðir að fylgismenn Roberts Mugabe forseta hafi myrt tugi stjórnarandstæðinga á síðustu vikum í þeirri viðleitni sinni að halda völdum í landinu. Mugabe sakar hins vegar stuðningsmenn Tsvangirais um að hvetja til ofbeldis.

Stjórnmálaskýrendur segja að með því að hóta því að draga sig út úr forsetaslagnum sé Tsvangirai hugsanlega að þrýsta á leiðtoga erlendra ríkja að krefjast sanngjarnra kosninga. Evrópusambandið mun vera að íhuga frekari aðgerðir gegn stjórnvöldum í Simbabve vegna ástandsins en nú þegar er í gildi vopnasölu- og ferðabann og þá hafa eignir Mugabes forseta verið frystar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×