Innlent

Staðfesti sýknudóm í fíkniefnabrotamáli

Hæstiréttur staðfesti í dag sýknudóm héraðsdóms Reykjavíkur yfir tveimur mönnum sem ákærðir voru fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot framið í ágóðaskyni í febrúar 2007. Öðrum manninum var gefið að sök að hafa flutt til landsins um 3,8 kíló af kókaíni, ætlað til söludreifingar. Efnið var falið í bifreið sem kom til landsins með flutningaskipi í nóvember 2006.

Þá var báðum mönnunum gefið að sök að hafa í sameiningu fjarlægt ætluð fíkniefni úr bifreiðinni og hinum manninum að hafa tekið við vörslum þess í því skyni að afhenda það til söludreifingar. Lögregla hafði þá lagt hald á efnið og komið fyrir gerviefni í þess stað.

Mennirnir neituðu báðir sök. Fyrrnefndi sakborningurinn annaðist tollafgreiðslu bifreiðarinnar eins og í ákæru greinir og hann hefur sjálfur borið um þótt hann neiti því að hafa gert það í þeirri trú að fíkniefnin sem flutt voru til landsins væru þá falin í bifreiðinni. Hann hefur staðfastlega neitað að hafa vitað um fíkniefnin.

Talið var að þrátt fyrir að framburður mannanna væri með nokkrum ólíkindablæ hefði ákæruvaldinu ekki tekist að færa fyrir því sönnur að þeir væru sekir. Voru mennirnir því sýknaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×