Lífið

Iceland = Í djúpum skít

Poul Thomsen og félagar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafa verið áberandi í fréttum af „Iceland“ á google.com
Poul Thomsen og félagar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafa verið áberandi í fréttum af „Iceland“ á google.com

Orðið „Iceland“ hefur verið áberandi á vefsíðum veraldarvefjarins undanfarna þrjá mánuði eða síðan íslensku bankarnir fóru á annan endann. Freyr Gígja Gunnarsson rannsakaði málið á leitarsíðunni google og komst að því að Ísland hefur náð að troða sér inn í málvitund erlendra blaðamannna.

„Kenningar um tilnefningar til Óskarsverðlauna verða yfirleitt jafnfljótt gjaldþrota og íslensku bankarnir.“ Þannig skrifar blaðamaður Reuters-fréttastofunnar um þær tilgátur sem spretta fram þegar nær dregur Óskarsverðlaununum í Bandaríkjunum. Orðið „Iceland“ er því orðið að hálfgerðu hugtaki í hugum erlendra blaðamanna. Skiptir engu um hvað er skrifað, ef einhver er í djúpum skít, á leið í ræsið eða þaðan af verra er hann huggaður með þeim orðum að hann sé ekki í jafn slæmum málum og „Iceland“. Og allir vita hvað það þýðir: Þjóðargjaldþrot. „Iceland“ hefur því náð þeim áfanga að troða sér inn í málvitund erlendra blaðamanna.

Tæplega tíu þúsund fréttir voru skrifaðar um „Iceland“ á netinu á undanförnum mánuði ef marka má leitarvélina Google. Flestar fréttirnar fjalla eðlilega um efnahagshrunið og aðstoðina frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Inn á milli má þó rekast á vandræðasögur af Kerry Katona, talskonu frystivörukeðjunnar Iceland, sem er í eigu Íslendinga. Hún mætti nefnilega blindfull í sjónvarpsþátt og vissi hvorki í þennan heim né annan. Hegðunin varð eflaust ekki til að bæta ímynd orðsins „Iceland“ á netinu; ekki eingöngu tengdist það gjaldþroti heldur líka fallinni raunveruleikastjörnu.

En það eru þó jákvæðar hliðar á öllu. Erlendir fjölmiðlar eru ákaflega áhugasamir um menningu og sögu þessarar þjóðar sem tókst að setja sig á hausinn með gjálífi og glamúr. Þannig hafa ferðamannavefsíður verið ötular í kynningastarfi sínu og hvetja ferðalanga óspart til að kíkja til Íslands. Athygli vakti þegar Fréttablaðið greindi frá því að nýjasta nýtt væri að láta berja á bragðlaukunum með úldnum hákarli sem hefði fengið stjörnukokkinn Gordon Ramsay til að æla. Fréttavefur Associated Press greindi síðan frá því að vinsælasta jólagjöfin á Íslandi væru notaðir Sound of Music-DVD-diskar og notuð hermannaföt. Í matinn yrði síðan hrossakjöt.

Viðskiptavefurinn business24-7.com sem hefur aðsetur í Sádi-Arabíu greindi síðan frá því að Ísland væri ákaflega öflugt í smákökugerð en vinsælast væri þó laufabrauðið. Vefurinn var að taka saman matarhefðir í stórlöndum á borð við Japan, Frakkland og Bandaríkin og ákvað að bæta við Íslandi, eflaust vegna þess að moldríkir olíuarabar hafa áhuga á jólahefðum þessarar gjaldþrota þjóðar í norðri.

Gott fyrir Ísland Áhuginn á Íslandi og íslenskri menningu hefur sennilega aldrei verið jafn mikill og erlendir fréttavefir eru uppfullir af fréttum um þessa sérstöku þjóð.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.