Innlent

Áverkar af mannavöldum leiddu til dauða manns í sumarbústað

Bráðabirgðaniðurstaða úr krufningu á manni sem fannst látinn í sumarbústað í Grímsnesi um síðustu helgi benda til þess að maðurinn hafi hlotið áverka af manna völdum sem leitt hafi til dauða hans.

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, staðfestir þetta í samtali við Vísi og segir að um sé að ræða áverka sem þekktir séu úr hnefaleikum. Ekki sé þó hægt að staðfesta að maðurinn hafi verið sleginn með hnefa eða hnefum. Frekari rannsóknir eru fyrirhugaðar vegna þessa.

Fernt situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins, tvær konur og tveir karlar sem öll eru frá Litháen eins og hinn látni. Fólkið hefur verið yfirheyrt síðustu daga og segir Ólafur Helgi yfirheyrslur halda áfram til þess að fá skýrari mynd af atburðarásinni, en örlítið misræmi hafi verið í framburði fólksins, misræmi um atriði sem geta skipt máli.

Eins og fram hefur komið var eins árs gamalt barn í sumarbústaðnum í umrætt sinn en það mun hafa sofið í öðru herbergi en því þar sem átökin urðu. Barnið er í umsjá barnaverndaryfirvalda í heimilissveitarfélagi þess.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×