Lífið

Með burðardýr í startholunum

Árni Hlöðversson, Lóa Hjálmtýsdóttir og félagar í FM Belfast reyna að útvega fleiri eintök af nýju plötunni sinni.
Árni Hlöðversson, Lóa Hjálmtýsdóttir og félagar í FM Belfast reyna að útvega fleiri eintök af nýju plötunni sinni. MYND/fréttablaðið/anton

Fyrsta upplagið af plötu FM Belfast, How to Make Friends, er í þann mund að klárast og vinnur hljómsveitin nú hörðum höndum að því að útvega fleiri eintök.

Beitir hún til þess öllum ráðum og kemur til greina að fá vin vinkonu Árna Hlöðverssonar, sem býr í Berlín, til að fljúga heim með eintökin. „Ég veit ekki nákvæmlega hver það er,“ segir Árni um burðardýrið. „Þetta verður sent heim til vinkonu minnar í Berlín og sótt þangað ef þetta næst ekki með pósti.“

Um tvö þúsund eintök er að ræða, sem er jafnmikið og platan hefur selst í jólavertíðinni. „Þetta er ennþá mjög óskýrt. Ég er ekki viss um að þetta náist, við erum bara að bíða,“ segir Árni og vonar það besta. „Það er verið að kanna báðar leiðir.“

Hljómsveitin sá alfarið sjálf um framleiðslu plötunnar og þarf því sjálf að redda þessum viðbótareintökum. Árni játar að vissulega yrði það leiðinlegt ef platan næði ekki til landsins í tæka tíð en er samt ekkert að stressa sig. „Við erum búin að selja meira en við bjuggumst við þannig að við erum sátt. En það er leiðinlegt ef einhver vill kaupa plötuna fyrir jólin og getur það ekki.“

Spurður hvort þau græði eitthvað á útgáfunni segir Árni: „Við komum allavega út í plús. En það má alveg tína til kostnað undanfarinna ára og segja að þetta sé í mínus.“

- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.