Skoðun

Ofbeldi gegn konum kemur niður á næstu kynslóð

Konur njóta sérstakrar verndar undir alþjóðlegum mannúðarlögum. Engu að síður er kynbundið ofbeldi notað sem vopn á átakasvæðum - vopn sem ekki aðeins hefur áhrif á konurnar sem fyrir ofbeldinu verða heldur einnig á fjölskyldur þeirra, maka og börn. Kynbundið ofbeldi er klárt brot á mannúðarlögum, og ber að fordæma í hverri mynd sem það birtist.

Rauði kross Íslands er eitt af mörgum félagasamtökum sem standa að 16 daga alþjóðlegu átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Ég vil því nota tækifærið hér til að vekja athygli á aðstæðum þolenda kynbundins ofbeldis á átakasvæðum um allan heim.

Alþjóða Rauði krossinn hefur áratugum saman barist gegn slíku ofbeldi á átakasvæðum. Fjölmörg verkefni á vegum Rauða krossins stuðla að því að styrkja konur sem hafa orðið fórnarlömb kynferðisofbeldis og hjálpa þeim að takast á við lífið á ný. Oftar en ekki verða konur fyrir heilsutjóni vegna ofbeldis af hálfu stríðsmanna.

En kynbundið ofbeldi skilur einnig eftir sig ör sem ekki eru sjáanleg. Konur sem verða fyrir slíku áfalli lifa oft í ævilöngum ótta og þjást af þunglyndi og depurð. Verkefni Rauða krossins í sálrænum stuðningi á átakasvæðum eru því engu síður mikilvæg en þau sem lúta að líkamlegri velferð og heilbrigði.

Á ferð minni um Palestínu á liðnu sumri varð ég áþreifanlega vör við afleiðingar kynbundins ofbeldis á konur á herteknu svæðunum. Rauði kross Íslands hefur síðan árið 2002 tekið þátt í samvinnuverkefni með danska Rauða krossinum og palestínska Rauða hálfmánanum um sálrænan stuðning í grunnskólum. Þar koma áhrif ofbeldisins í umhverfinu berlega í ljós hjá börnunum og endurspeglast í hegðun þeirra og líðan.

Konur og ungar stúlkur á herteknu svæðunum verða daglega fyrir kynferðislegri áreitni hermanna við vegatálma og eftirlitsstöðvar.

Hermenn ryðjast inn á heimili, handtaka feður, bræður og syni, og lítillækka konur. Fjölskyldur á svæðinu eru berskjaldaðar og búa ætíð við óöryggi og ótta. Þetta bitnar mest á börnunum.

Ofbeldi er daglegt brauð. Börnin líða fyrir það. Stúlkurnar í hópnum draga sig í skel, drengirnir sýna ofbeldisfulla hegðun í skólanum. Verkefni Rauða krossins og Rauða hálfmánans í grunnskólum Palestínu miðast ekki aðeins við að veita börnunum sálrænan stuðning heldur einnig að aðstoða foreldra og kennara við að skapa griðastað bæði í skólanum og inni á heimilunum. Meirihluti mæðranna nýtir sér þetta tækifæri til að vinna bug á óttanum og vanlíðaninni sem fylgir ofbeldinu í nánasta umhverfi.

Reynsla Rauða krossins sýnir að með sálrænum stuðningi er hægt að hjálpa til við að græða örin sem kynbundið ofbeldi skilur eftir - og koma í veg fyrir að afleiðingarnar bitni á næstu kynslóð.

Höfundur er formaður Rauða kross Íslands.






Skoðun

Sjá meira


×