Innlent

Fresta framkvæmdum á landfyllingu til þess að ná sátt

Bæjarráð Kópvogs hyggst fresta framkvæmdum á landfyllingu á Kársnesi til að ná sáttum við Reykjavíkurborg í málinu. Bæjarfulltrúi Kópavogs segir framkvæmdirnar þó ekki ógna lífríki Skerjafjarðar.

Reykjavíkurborg hefur gagnrýnt boðaða landfyllingu Kópavogs á Kársnesi. Í ályktun sem umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar sendi frá sér fyrir skemmstu kemur meðal annars fram að framkvæmdirnar geti haft neikvæð áhrif á lífríki Skerjafjarðar og aukið mengun. Er ennfremur gagnrýnt ekki sé búið að ganga frá endanlegu mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna.

Bæjarráð Kópavogs hyggst fresta frekari framkvæmdum á svæðinu til að ná sáttum í málinu. „Til að ná góðri sátt þá erum við að skoða hvort við eigum ekki að stoppa með landfyllingarsvæði okkar í því augnamiði að ná sáttum og hugsanlega í bæjarráðinu næsta fimmtudag munum við ræða þessar hugmyndir okkar," segir Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs.

Ómar segir mögulegt að borgaryfirvöld hafi misskilið málið og byggi sína gagnrýni á gögnum um að yfirvöld í Kópavogi séu að vinna eftir gamla aðalskipulaginu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×