Erlent

Tsvangirai flýr í sendiráð Hollands í Harare

Morgan Tsvangirai, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Simbabve, flýði í dag í sendiráð Hollands í Harare eftir því sem hollenskir miðlar greina frá.

Ekki liggur fyrir hvers vegna hann gerir það en þess má gæta að leiðtoginn hefur nokkrum sinnum verið handtekinn á síðustu vikum í aðdraganda seinni umferðar forsetakosninga í Simbabve.

Tsvangirai lýsti því yfir í gær að hann hefði dregið framboð sitt til forseta til baka, en kosningar fara fram á föstudag. Sagðist hann gera það vegna þess mikla ofbeldis sem stuðningsmenn hans væru beittir. MDC, flokkur Tsvangirais, fullyrðir að menn hliðhollir forsetanum Robert Mugabe hafi drepið nærri 90 stjórnarandstæðinga.

Vaxandi þrýstingur er nú á Mugabe frá alþjóðasamfélaginu að binda endi á átökin í landinu en forsetinn aldni hefur hingað til haldið því fram að stjórnarandstæðingar beri ábyrgð á ofbeldinu í aðdraganda kosninganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×