Erlent

Verkfall í olíuhreinsistöð veldur vandræðum í Skotlandi

Bresk yfirvöld senda nú aukabirgðir af olíu með tankskipum til Skotlands eftir að verkamenn í þriðju stærstu olíuhreinisstöð Bretlands fóru í verkfall í gærdag.

Stöðin er staðsett í Grangemouth í Skotlandi og um þriðjungur af olíunni sem Bretar vinna í Norðursjó fer um hana. Hundruðir verkamanna lögðu niður vinnu sína eftir að samningaviðræður við eigendur stöðvarinnar fóru í hnút fyrir helgina.

Deilan stendur um lífeyrisgreiðslur til verkamannana en verkalýðsfélag þeirra telur greiðslurnar óviðunandi. Verkfallið mun standa í tvo daga til að byrja með.

Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Skotlandi munu nokkrar bensínstöðvar í landinu þegar vera uppiskroppa með bensín og olíu enda hafa ökumenn hamstrað eldsneyti af miklum móð eftir að ljóst varð að verkfallið er skollið á.

Búist er við að sjö tankskip með um 65.000 tonn af eldsneyti komi til Skotlands í dag en það er nægilegt magn til að keyra bensínstöðvar landsins í tíu daga. Forsætisráðherra Skotlands hefur hvatt deiluaðila til að leysa málið hið fyrsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×