Innlent

Sendinefndin farin til Íraks að hitta flóttafólk

Guðrún Ögmundsdóttir er formaður Flóttamannanefndar
Guðrún Ögmundsdóttir er formaður Flóttamannanefndar

Íslensk sendinefnd lagði í dag af stað til Íraks til að taka viðtöl við flóttafólk sem boðið verður hæli hér á landi nú í haust. Sendinefndin verður í Írak í viku og sagðist Sólveig Ólafsdóttir hjá Rauða kross Íslands í ljósi þess að reynslan sýni að það hafi reynst börnum úr hópi flóttafólks erfitt að byrja nám sitt eftir að skólaárið er hafið ,,vonast til þess að hópurinn komi til landsins í ágúst."

Fram kemur á heimasíðu Rauða krossins að flóttafólkið dvelst í Al Waleed flóttamannabúðunum sem liggja nærri landamærum Sýrlands. Það er mat Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna að palestínskir flóttamenn í Írak séu í brýnni þörf fyrir öruggt skjól, og fóru Sameinuðu þjóðirnar því þess á leit við íslensk stjórnvöld að veita hluta þeirra sem þar dvelja hæli. Vegna ótryggs ástands í Al Waleed flóttamannabúðunum geta hvorki Flóttamannastofnun, Rauði krossinn né önnur hjálparsamtök hafst við í búðnum, og er aðeins hægt að fara þangað í björtu.

Flóttafjölskyldurnar munu setjast að á Akranesi. Ákvörðun bæjaryfirvalda var umdeild og olli því að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Frjálslynda flokksins sprakk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×