Erlent

Sjóræningjafáni í grenndarkynningu

Slökkviliðsmaður í London á yfir höfði sér málsókn fyrir að flagga sjóræningjafána í garðinum sínum. David Waterman var að halda upp á átta ára afmæli dóttur sinnar og eins og tíðkast oft í afmælum var ákveðið þema í veislunni.

Stelpan vildi endilega að allir í afmælinu skrýddust sjóræningjabúningum og til að auka á stemmninguna flaggaði Waterman svarta fánanum með hauskúpunni, dótturinni til mikillar gleði. Nágranni Waterman var ekki eins glaður og sigaði lögreglu á hann.

Hann neitaði hins vegar að verða við óskum lögreglumannana og á nú yfir höfði sér málsókn fyrir athæfið. Samkvæmt breskum lögum þarf leyfi frá skipulagsyfirvöldum til að flagga fána sem ekki er þjóðfáni.

Waterman gramdist svo óbilgirni nágrannans að nú hefur hann sótt um að fáninn verði settur í grenndarkynningu og hyggst hann flagga honum um ókomna tíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×