Erlent

Tamíltígrar gerðu loftárásir á herinn á Srí Lanka

Hermenn á vegum stjórnvalda á Srí Lanka á æfingu. Úr myndasafni.
Hermenn á vegum stjórnvalda á Srí Lanka á æfingu. Úr myndasafni. MYND/AP

Engan sakaði þegar skæruliðar Tamíltígra gerðu loftárás á herstöð í Welioya-héraði á norðausturhluta Srí Lanka í dag.

Þremur sprengjum var varpað á herstöðina en engar skemmdir urðu á henni að sögn hersins. Árásin kemur í kjölfar mannskæðrar árásar Tígranna nærri höfuðborginni Kólombó á föstudag, en þá léstust 26 þegar sprengja sprakk í strætó. Þetta er í fimmta sinn sem Tígrarnir gera loftárásir frá því að þeir komu sér upp flugvélum í fyrra en talið er að þeim hafi verið smyglað inn í landið.

Enginn endir virðist ætla verða á átökum Tamíltígra og stjórnvalda á Srí Lanka. Tígrarnir hafa barist fyrir sjálfstæðu ríki Tamíla á eyjunni en þeir eru í minnihluta. Að minnsta kosti 70 þúsund manns hafa fallið í átökum Tígranna og stjórnvalda frá árinu 1983 þegar borgarstríð braust út í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×