Erlent

Obama kynnir stefnumörkun í efnahagsmálum í dag

MYND/AP

Barack Obama, forsetaframbjóðandi demókrata, mun síðar í dag kynna áætlun sína um það hvernig bjarga eigi bandarísku efnahagslífi úr þeim hremmingum sem nú standa yfir. Svohljóðandi tilkynning barst úr herbúðum hans fyrr í dag og sagt að um meiri háttar stefnumörkunarræðu væri að ræða. Obama mun ávarpa mannfjölda í Toledo í Ohio en frekari upplýsingar eru ekki gefnar um málið.

Nýjar skoðanakannanir vestan hafs sýna að Obama hefur áfram forskot á keppinaut sinn, John McCain, forsetaframbjóðanda repúblikana, meðal líklegra kjósenda en misjafnt er eftir könnunum hversu mikill munurinn er.

Samkvæmt könnun Reuters,C-SPAN og Zogby er forskot Obama fjögur prósent en könnun Washington Post og ABC fréttastöðvarinnar sýnir að Obama hefur tíu prósenta forskot, 53 prósent á móti 43.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×