Innlent

Tilgangslaus ferð til London vegna seinkunar Iceland Express

Breki Logason skrifar
Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Eiríkur Bergmann Einarsson, dósent og forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst, röltir nú um London í tilgangsleysi. Eiríkur missti af fundi í London vegna seinkunar á flugi hjá Iceland Express. Eiríkur segist ekki æfur af bræði en það sé pirrandi að hafa misst af fundinum. Eiríkur ætlar að kanna hvort hann geti krafið flugfélagið um skaðabætur, enda hefur hann orðið fyrir fjárhagslegu tjóni.

„Hann verður að senda okkur upplýsingar og útskýra þetta fjárhagslega tjón sitt eitthvað frekar, við skoðum síðan hvort það falli undir þær reglur sem gilda," segir Lára Ómarsdóttir upplýsingafulltrúi Iceland Express.

Eiríkur átti pantað flug til London í gærmorgun þar sem hann ætlaði að sækja fund sem hann var búinn að skipuleggja. Þaðan ætlaði Eiríkur síðan að fljúga til Berlínar. Aðfaranótt sunnudagsins fékk hann hinsvegar sms-skilaboð frá flugfélaginu þar sem tilkynnt var að morgunfluginu seinkaði en vélin færi seinni partinn.

„Það bilaði hjá okkur vél og við þurftum að setja upp nýtt plan og færa til flug vegna þess," segir Lára en flugfélagið lætur viðskiptavini sína vita með tölupósti og sms-skilaboðum ef fyrirséð er að seinkun verði á flugi.

Eiríkur fór hinsvegar út seinni partinn en ekkert varð af fundinum sem hann ætlaði að fara á.

„Ég er því hérna í London í tilgangsleysi, það er nú samt hægt að hugsa sér verri örlög en það," segir Eiríkur sem þó hefði farið beint til Berlínar ef hann hefði vitað af seinkuninni.

Aðspurður hvort hann ætli að kanna hvort flugfélagið sé skaðabótaskylt segist Eiríkur ætla að athuga það þegar hann komi heim. „Það þarf að minnsta kosti að halda annan fund einhverntíma aftur með tilheyrandi kostnaði."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×