Innlent

Sjálfsvíg fátíð á geðdeildum

Hundruð manna eru lagðir inn á geðdeildir Landspítalans á hverju ári vegna þess að hætta er talin á að þeir svipti sig lífi. Afar fátítt er að mönnum takist að fremja sjálfsvíg inni á geðdeildum og þeir eru öruggari inni en úti í þjóðfélaginu, segir yfirlæknir bráðamóttöku geðdeildanna.

Eins og sagt var frá í fréttum Stöðvar 2 fyrir helgi þá tók karlmaður sitt eigið líf nýverið á meðan hann lá inni á geðdeild Landspítalans. Mannslát sem þessi eru ævinlega send til skoðunar hjá Landlæknisembættinu og til lögreglu.

Afar fátítt mun vera að mönnum takist að svipta sig lífi inni á geðdeildum - þótt erfitt sé að nálgast tölur um það. Eftir því sem næst verður komist hafa þrír til fjórir einstaklingar svipt sig lífi á geðdeildum Landspítalans við Hringbraut á síðustu 20 árum. Þó hefur þeim sem leita til spítalans fjölgað undanfarinn áratug og stór hluti þeirra er í sjálfsvígshættu.

Tólf hundruð sinnum á ári er manneskja talin svo veik að leggja þurfi hana inn á geðdeild Landspítalans við Hringbraut. Þar af eru fjögur til fimmhundruð skipti vegna þess að viðkomandi er talinn í sjálfsvígshættu.

En þá er ekki allt talið - upp undir 25 manneskjur leita til bráðamóttöku geðdeildanna á hverjum degi, sem þýðir að fólk leitar þangað um 9000 sinnum á hverju ári. Inni í þessari tölu eru ekki þeir sem eru að koma í reglubundið eftirlit eða viðtalstíma.

Aðstoðarlandlæknir sagði fyrir helgi ekki hægt að fyrirbyggja öll sjálfsvíg inni á geðdeildum, til þess sé geðlæknisfræðin of skammt á veg komin. Halldóra tekur í sama streng.

Halldóra segir ekki manneklu á geðdeildunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×