Erlent

Ekki nægur stuðningur við Tempelhof í Berlín

Tempelhof-flugvöllurinn er gríðarstór.
Tempelhof-flugvöllurinn er gríðarstór. MYND/AP

Útlit er fyrir að hinum sögufræga Tempelhof-flugvelli í Berlín í Þýskalandi verði lokað ef marka má fyrstu tölur úr kosningu um framtíð hans í dag.

Um 21 prósent af kjóendum í borginni kusu gegn því að vellinum yrði lokað en fjórðungur borgarbúa þurfti að greiða atkvæði á þann hátt til þess að það yrði tekið til greina. Það skal þó tekið fram að borgarstjórnin í Berlín hafði lýst því yfir að kosningin í dag væri ekki bindandi.

Stuðningsmenn vallarins höfðu vonast eftir góðri kjörsókn í dag svo sannfæra mætti borgaryfirvöld um að halda flugvellinum opnum áfram en þeim virðist ekki hafa orðið að ósk sinni. Af þeim sem kusu voru sex af hverjum tíu andvígir því að loka vellinum en 40 prósent því fylgjandi. Kjörsókn reyndist aðeins 36 prósent sem þýðir að tilskilinn fjórðungur borgarbúa lagðist ekki gegn honum í kosningunum.

Borgaryfirvöld í Berlín vilja loka flugvellinum þar sem umferð um hann er lítil og auk þess fæst dýrmætt byggingarland með því að loka honum. Stuðningsmenn vallarins benda hins vegar á að hann geti vel nýst sem flugvöllur fyrir viðskiptalífið og stutt flug innan Evrópu.

Þá hefur verið bent á sess flugvallarins í sögunni en hann notuðu bandamenn í upphafi Kalda stríðsins þegar Sovétmenn höfðu einangrað Vestur-Berlín. Var þá loftbrú flugvéla til flugvallarins með mat og aðrar nauðsynjar fyrir íbúa Vestur-Berlínar. Tempelhof-flugvöllur er sagður þriðja stærsta mannvirki í heimi á eftir Pentagon í Bandaríkjunum og Höll Ceausescus í Búkarest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×