Erlent

Tólf þúsund hið minnsta látnir í Kína

Umfangsmiklar björgunaraðgerðir standa yfir í suð-vesturhluta Kína eftir að einhver öflugasti jarðskjálfti í áratugi reið þar yfir í gær. Minnst tólf þúsund manns fórust og er eftirlifenda leitað í rústum húsa.

Fyrstu björgunarsveitirnar náðu í morgun til Wenchuan í Kína sem er nærri upptökum skjálftans í Sichuan héraði í suðvesturhluta landsins. Skjálftinn mældist 7,9 á Richter. För björgunarsveitarmanna gekk erfiðlega þar sem um þrjátíu eftirskjálftar hafa orðið, allir af stærðargráðunni fjórir á Richter eða öflugri.

Grjóthraun hefur orðið víða á svæðinu og aurskriður fallið yfir vegi. Ekki hefur verið hægt að lenda þyrlum víða vegna slæms veðurs. Enn hafa engar upplýsingar borist um mannfall í Wenchuan en þar búa rúmlega hundrað og tíu þúsund manns.

Vitað er að nærri tólf þúsund hið minnsta fórust í jarðskjálftanum í gær en óttast að tala látinna eigi eftir að hækka töluvert. Eftirlifenda er leitað í rústum húsa í Sichuan héraði. Sérfræðingar segja næstu tvo sólahringa ráða því hvort fólk finnst lífs eða liðið. Eftir að þrír sólahringjar eru liðnir frá jarðhræringum séu nær engar líkur á að fólk finnist lifandi í rústum húsa.

Wen Jiabao, forsætisráðherra, lagði af stað á hamfarasvæðið í gær og hitti marga þeirra sem bjargað var í morgun. Yfirvöld hafa hvatt Kínverja til að gefa blóð til hjálparstarfsins.

Jarðskjálftinn í gær er sá mannskæðasti í Kína síðan 1976. Þá fórust tvö hundruð og fjörutíu þúsund manns í skjálfta í borginni Tangshan nærri Peking.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×