Erlent

Hillary vann sannfærandi í Pennsylvaníu

Hillary Clinton vann nokkuð sannfærandi sigur á Barak Obama í Pennsylvaníu og þar með er útlit fyrir að barátta þeirra um hvort verði forsetaefni Demókrata muni standa langt fram á sumarið Þegar nær öll atkvæði voru talin hafði Hillary hlotið 55% atkvæða á móti 45% hjá Barak Obama. Fréttaskýrendur segja að sigur sinn eigi Hillary einkum að því að þakka að kjarninn í stuðningshópi hennar, það er eldri hvítar konur, hafi skilað sér vel og dyggilega á kjörstaðina í Pennsylvaníu.

Eftir sigur sinn gaf Hillary út nokkuð stórkarlalega yfirlýsingu um að straumhvörf hefðu orðið í baráttu hennar og Obama og að hún myndi ekki gefast upp. Eftir sem áður er það staðreynd að Obama mælist með meira fylgi en hún á landsvísu. Kosningabaráttan kostaði Hillary mikið fé, svo mikið að sjóðir hennar eru að tæmast. Því biðlaði hún til stuðningsmanna sinna um meiri fjárhagslegan stuðning.

Barak Obama getur vel unað við úrslitin en það veldur honum nokkrum áhyggjum að hann sigraði ekki í neinu af stærstu ríkjunum og Pennsylvanía var síðasta tækifærið til þess.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×