Innlent

„Átti ekki von á því að þetta færi svona“

Breki Logason skrifar
Tryggvi Jónsson
Tryggvi Jónsson

Tryggvi Jónsson fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs segist fyrst og fremst vera ofboðslega feginn því að Baugsmálinu sé lokið. Hann hlaut þyngsta dóminn í Hæstarétti í dag, 12 mánuða skilorðsbundið fangelsi. „Maður átti samt ekki von á því að þetta færi svona," segir Tryggvi sem hefur verið sakborningur í Baugsmálinu í 6 ár.

„Í ljósi þess að búið er að gramsa í þessu í svona langan tíma þá finnst mér þetta afskaplega rýr uppskera og er í raun meiri dómur yfir Ríkislögreglustjóra og stjórnendum þar og saksóknara en yfir okkur Jóni," segir Tryggvi sem fór fram á sýknu í Hæstarétti.

„Ég átti nú von á sýknu eða lægri dómi. En svona er þetta, það tjáir víst lítið að deila við dómarann."

Tryggvi segir að ekkert fyrirtæki hefði getað staðist 6 ára skoðun án þess að eitthvað rykkorn fyndist.

„En við höfum alltaf lagt áherslu á það sjálfir að við töldum okkur vera að gera rétt, þó dómurinn sé því ósammála," segir Tryggvi og nefnir að málið liggi til meðferðar hjá mannréttindadómstólnum.

Í hlutafélagalögum segir að stjórnarmenn eða framkvæmdarstjórar megi ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað. Menn velta því fyrir sér hvort Tryggvi og Jón Ásgeir verði að segja úr einhverjum stjórnum.

„Þessi lög sem þú nefnir eru byggð á dönskum lögum og eru fyrst og fremst sett til þess að ná utan um svokallaða kennitöluflakkara. Að okkur vitandi hefur aldrei neinn þurft að fara úr stjórn sem hefur fengið dóm á sig og því er ekkert fordæmi fyrir þessu," segir Tryggvi.

„ Síðan er spurning hvort það sé hægt að banna mönnum að vera í stjórn fyrirtækis sem þeir eiga, og þá bara út frá eignarréttar sjónarmiði."

Lög um hlutafélög númer 2 frá 1995, kafli 9

66. gr. Stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar skulu vera lögráða, fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×