Innlent

Olíuverð heldur áfram að lækka

Olíuverð á heimsmörkuðum heldur áfram að lækka. Olíufatið stóð í dag í 118 Bandaríkjadölum, sem er um 30 dölum lægra en það var hæst fyrir mánuði síðan.

Það mun vera hækkandi birgðastaða sem veldur þessum lækkunum og er olíuverð nú lægra en það hefur verið um þriggja mánaða skeið.

Áhyggjur manna í gær af því að illviðri á Mexíkóflóa gæti ýtt verðinu upp á ný urðu að engu þegar svo virtist sem olíupallar hefðu sloppið við versta veðrið.

Samtímis þessu hefur framleiðsla OPEC ríkjanna aukist þriðja mánuðinn í röð og jafnframt reikna menn með að neyslusamdráttur í Bandaríkjunum dragi enn frekar úr eftirspurn.

Þá skiptir einnig máli í þessu sambandi að spekúlantar eru að færa sig úr olíunni, sem ekki lengur er ávísun á öruggan stórgróða, og yfir í aðrar vörur.

Breskur sérfræðingur sagði BBC að reikna mætti með áframhaldandi lækkun olíuverðs - jafnvel allt niður í 100 dali á fatið innan mánaðar.

En stóru vestrænu olíufélögin halda áfram að græða. Chevron, Shell, British Petroleum, Total og Exxon hafa öll birt afkomutölur síðustu þriggja mánaða. Heildartekjur félaganna hafa alls aukist um 39% frá sama tíma í fyrra. Það er tekjuaukning upp á 7,3 milljarða evra.

Hér á landi lækkuðu stóru olíufélögin bensínverð í dag um tvær krónur. Bensínlítrinn kostar nákvæmlega það sama hjá Skeljungi, Olís og N1, 167 krónur og 70 aura í sjálfsafgreiðslu. Hjá Atlantsolíu, ÓB, orkunni og EGO kostar bensínlítrinn rúmlega krónu minna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×