Innlent

„Fólkið á Íslandi hefur virkilega snert hjarta mitt"

Nanna Hlín skrifar
Paul Ramses
Paul Ramses

„Ég er svo þakklátur fyrir allan þann stuðning sem fólkið á Íslandi hefur sýnt mér" segir Paul Ramses sem dvelur nú á gistiheimili fyrir hælisleitendur í Róm. „Það sýnir okkur að Íslendingar eru friðelskandi þjóð og umhugað um mannréttindi sem er gott að vita og gott fyrir fólkið."

„Þegar maður kemur til lands sem hælisleitandi veit maður ekki hvernig fólk á eftir að koma fram við mann. Ég þarfnaðist ástar og umhyggju og fólkið á Íslandi hefur virkilega snert hjarta mitt," segir Ramses.

Ramses sótti um hæli hér á landi í lok janúar. Á miðvikudagskvöldið í síðustu viku fékk hann þær fregnir frá lögreglunni að ákvörðun hefði verið tekin um að synja því að fjalla um hælisbeiðni hans hér á landi og senda hann til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarsamningsins. Snemma morguns daginn var hann sendur af landi brott. Lögfræðingur hans, Katrín Theódórsdóttir, hefur kært ákvörðunina til dómsmálaráðuneytisins og krafist þess að hún verði dæmd ógild.

„Þegar þetta gerðist varð ég svo áttavilltur, þar sem ég vissi líka hvernig aðstæður væru í Kenía, að ég væri ekki öruggur þar. Við fjölskyldan erum svo þakklát að ég muni að minnsta kosti kannski fá annað tækifæri til þess að lifa og vera til staðar fyrir fjölskyldu mína."

Paul Ramses sagðist í samtali við Vísi vera frekar þreyttur eftir allt sem hefði gengið á og saknar fjölskyldu sinnar. Hann hefði tvisvar farið á skrifstofuna þar sem sótt er um hæli á Ítalíu en þar hefðu verið miklar raðir af fólki.

Ramses hafði ekki heyrt neitt frá fulltrúum Íslands á Ítalíu. Einhver frá sendiráði Íslands hefði reynt að hringja á gistiheimilið á laugardaginn en hann hefði ekki verið við. Hann hafði hins vegar fengið símanúmer til að hringja í en enginn svarað því númeri. Ramses var mjög ánægður að heyra að utanríkisráðherra Íslands, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir væri umhugað um málið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×