Innlent

Óprúttnir aðilar svíkja og pretta í nafni MS-félagsins

Nanna Hlín skrifar
MS-félagið er meðal annars að selja armbönd í verslunarmiðstöðvum.
MS-félagið er meðal annars að selja armbönd í verslunarmiðstöðvum.

Árvökulir borgarar létu MS-félagið vita af því í dag að fólk væri að ganga í hús í Breiðholtinu í dag og biðja um lausafé í söfnunarbauk til styrktar félaginu. Berglind Ólafsdóttir hjá MS-félaginu segir að þarna hafi ekki verið um fólk á þeirra vegum að ræða. Félagið stundi ekki að ganga í hús og biðja um fé til styrktar félaginu.

„Þetta eru ekki okkar aðferðir, við höfum verið að selja spilastokka í kvöldhringingum og sjálfboðaliðar hafa staðið í verslunarmiðstöðvum og verið að selja armbönd," segir Berglind. Um er að ræða fjáröflunarátak í tilefni 40 ára afmæli félagsins og hafði verið send út fréttatilkynning til kynningar átakinu.

„Þeir aðilar sem létu okkur vita létu ekki blekkjast en maður veit ekki með aðra. Þeir lýstu meðal annars ungri stúlku um 24 ára gamalli sem var að ganga í hús," segir Berglind. „Við viljum bara að fólk viti að þetta er ekki á okkar vegum og það er ekki að styrkja MS-félagið ef það gefur fé í söfnunarbauka hjá fólki sem ganga í hús."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×