Innlent

Ferðalangi blöskrar ofsaakstur forsetabifreiðar

Breki Logason skrifar
Forsetabíllinn
Forsetabíllinn

Ingibjörg Bragadóttir var á leiðinni til Reykjavíkur úr Borgarnesi. Undir Akrafjalli var bíll við bíl á um 100 km hraða. Skyndilega fær Ingibjörg bíl alveg upp að afturenda bifreiðar sinnar. Henni blöskraði aksturslag bílsins og brá enn frekar í brún þegar hún sá að þarna var forsetabílinn. Hún segir að um ofsaakstur hafi verið að ræða en forsetaembættið vísar þeim ásökunum á bug.

„Hann fór fram úr mér á rúmlega 110 kílómetra hraða og hvarf síðan eftir að hafa tekið fram úr fleiri bílum. Það kalla ég ofsaakstur," segir Ingibjörg sem var á leiðinni til Reykjavíkur með fimmtán ára gömlum syni sínum.

Ingibjörg segir að fyrst hafi hún ekki tekið eftir að þarna væri forsetabifreiðin á ferðinni en brá enn frekar þegar hún sá númerið og íslenska fánann. „Hann var síðan að reyna að taka fram úr stórum fóðurbíl í nokkur skipti sem hann svo gerði að lokum, með þvílíkum sjéns þannig að maður svitnaði bara," segir Ingibjörg.

„Ég kannast ekki við það að bílnum hafi verið ekið á óeðlilegum hraða. Hvorki undir Akrafjalli né annarsstaðar á leið sinni úr Húnaþingi," segir Örnólfur Thorsson forsetaritari í samtali við Vísi. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Samkvæmt heimildum Vísis gilda ekki sérstakar reglur um bifreið forseta Íslands um forgangsakstur. Bíllin er einungis í forgangsakstri ef hann er í fylgd lögreglu, sem var ekki undir Akrafjalli í gærkvöldi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×