Innlent

Tveir unglingar dæmdir fyrir ofbeldi gegn lögreglumönnum

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í morgun 17 ára gamla stúlku í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á lögreglukonu við lögreglustöðina í Reykjanesbæ þann 11. nóvember 2007. Stúlkan beit í lögreglukonuna með þeim afleiðingum að hún hlaut mar á handleggnum.

Þá dæmdi Héraðsdómur Reykjaness jafnframt sextán ára pilt í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að skalla lögreglumann í hægri vanga þann 21. desember 2007 þannig að höfuð hans skall í hurð á fangaklefa með þeim afleiðingum að hann hlaut eymsli í andliti og hálsi.

Í báðum tilfellum var litið til þess við ákvörðun refsingar að brot gegn lögreglumanni að störfum eru litin alvarlegum augum og að áverkar hlutust af árásunum. Hins vegar var það virt til refsilækkunar hversu ungir árásarmennirnir voru. Þá var það jafnframt virt piltinum til refsilækkunar að hann bað lögreglumanninn afsökunar á gjörðum sínum og leitaði sálfræðihjálpar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×