Innlent

Frávísunarkrafa í milljónasvikamáli flutt í dag

Karl Georg mætti fyrir héraðsdóm þegar málið var þingfest.
Karl Georg mætti fyrir héraðsdóm þegar málið var þingfest.

Frávísunarkrafa Karls Georgs Sigurbjörnssonar, sem ákærður er fyrir að svíkja út 200 milljónir króna, var flutt í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Karl Georg er ákærður fyrir að hafa hagnýtt sér ranga hugmynd Sigurðar Þórðarsonar, þáverandi ríkisendurskoðanda, um hámarksverð sem hægt var að fá fyrir stofnfjárbréf í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Sigurður var einn af stofnfjáreigendum í sparisjóðnum og seldi ásamt fjórum öðrum hluti sína til dótturfélags Baugs fyrir 50 milljónir árið 2006. Dótturfélag Baugs seldi síðan bréfin á 90 milljónir hvern skammt.

Ragnar Hall hæstaréttarlögmaður flutti kröfuna fyrir hönd Karls Georgs, skjólstæðings sinn. Krafan er öðru fremur byggð á því að Karl Georg og Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður hafi verið samstarfsfélagar og unnið saman ýmis verkefni fyrir skjólstæðinga sína. Sigurður G. Guðjónsson og Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra séu þremenningar. Sigurður G. Guðjónsson hafi um tíma verið sakborningur í málinu og verið yfirheyrður, en ekki hafi verið gefin út ákæra gegn honum. Af þessum sökum sé Helgi Magnús Gunnarsson vanhæfur til að sækja málið.

Helgi Magnús Gunnarsson sagði hins vegar að kæran gegn Sigurði G. Guðjónssyni hefði lotið að öðru máli en viðskiptunum fyrir fimmmenningana sem töldu sig hafa verið sviknir í viðskiptum með bréfin í SPH. Þá væru hann og Sigurður það fjarskyldir að vanhæfisreglur ættu ekki við. Helgi Magnús krafðist því þess að málið yrði tekið til efnislegrar meðferðar.

Úrskurður um frávísunarkröfuna verður kveðinn upp á föstudaginn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×