Innlent

Reykjavíkurborg gagnrýnir Kópavogsbæ

Kársnes.
Kársnes.

Reykjavíkurborg segir að fyrirhugaðar landfyllingar á Kársnesi í Kópavogi séu óásættanlegar. Þetta kemur fram í umsögn Umhverfis-og samgöngusviðs borgarinnar vegna skipulagsbreytinga á Kársnesi.

Sviðið telur ótækt að eitt sveitarfélag við Skerjafjörð geti framkvæmt landfyllingu í sjó að sveitarfélagamörkum sínum án þess að spyrja aðra.

Umhverfis-og samgöngusvið Reykjavíkur segir að boðuð landfylling geti haft veruleg langtímaáhrif og mikil breyting verður á ásýnd Skerjafjarðar því Kársnesið er nánast fyrir miðju Skerjafjarðar. Bent er á að Umhverfisstofnun hafi það til skoðunar að friðlýsa Skerjafjörð.

Uppbygging á landfyllingu eykur hættu á meiri svifryksmengun í Reykjavík vegna nýrrar byggðar og umsvifa. Reykjavíkurborg vill að betur verði gerð grein fyrir því hvers konar atvinnustarfsemi er fyrirhuguð á svæðinu.

Í umsögninni segir að Reykjavíkurborg ætti að vera umsagnaraðili á öllum stigum þessa máls og áhrif á strandlengju Reykjavíkur á framkvæmdatíma þurfi iðulega að vera ljós, því að grugg, ryk og hávaði geta borist frá framkvæmdasvæði að strandsvæðum Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×