Innlent

Samfylkingin þurfti að gefa eftir í umhverfismálum

Einn helsti hugmyndafræðingurinn á bak við umhverfisstefnu Samfylkingarinnar segir að flokkurinn hafi þurft að gefa eftir veigamikil atriði í umhverfismálum í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Hann vill þó ekki meina að Fagra Ísland séu orðin tóm.

Samfylkingin gerði umhverfismál að einu helsta kosningamáli sínu fyrir alþingiskosningarnar í fyrra og var umhverfisstefnan Fagra Ísland óspart notuð í kosningabaráttunni. Eitt megininntak Fagra Íslands var að slá stóriðjuframkvæmdum á frest þar til nauðsynleg heildaryfirsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands liggur fyrir og verndun þeirra tryggð.

Ári eftir að Samfylkingin tók sæti í ríkisstjórn eru framkvæmdir þegar hafnar við byggingu álvers í Helguvík þar sem Bjögvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar, tók fyrstu skóflustunguna. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra skrifaði í gær undir samning við Alcoa um frekari hagkvæmniathuganir vegna álvers á Bakka við Húsavík.

Dofri Hermannsson, sem var einn af höfundum Fagra Íslands, var spurður út í það í Íslandi í dag í gær hvort umhverfisstefna Samfylkingarinnar væri marklaus. Dofri benti á að á meðan unnið væri að rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða vildi Samfylkingin fresta öllum stóriðjuframkvæmdum. Flokkurinn hafi hins vegar farið í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn sem ekki vildi það.

Dofri segir að flokkarnir tveir hafi gert málamiðlanir og það sem Samfylkingin hafi náð fram var að ekki væri farið í framkvæmdir á óröskuðum svæðum. Iðnaðarráðherra hafi hent út af borðinu umsóknum um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum, Torfajökulssvæðinu og ótal öðrum svæðum til þess að uppfylla það.

Þrátt fyrir það er Dofri óánægður með fyrirhugaðar framkvæmdir því samkvæmt Kyoto-bókuninni er einungis pláss fyrir eitt lítið álver. Hann telur tvö álver fráleit og segir að þau séu alltof orkufrek og hægt sé að nýta minni orku með miklu meira virðisaukandi hætti.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×