Erlent

Tölvunarfræðiprófessor braust inn í samgöngukortakerfi Lundúna

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Myndin tengist ekki þessari frétt.
Myndin tengist ekki þessari frétt. MYND/AP

Hollenskur tölvunarfræðiprófessor ferðaðist ókeypis um London með almenningssamgöngukerfi borgarinnar alla síðustu viku.

Það virðist ef til vill ekki í frásögur færandi en ferðalagið fór fram með þeim hætti að prófessorinn, dr. Bart Jacobs, notaði fartölvu til að afrita svokölluð Mifare-kort samferðarmanna sinna, einfaldlega með því að koma sér fyrir við hliðina á þeim og lesa gögn af kortinu þráðlaust með svipuðum skynjara og þeim sem farþegar bera kortin upp að til að komast inn í neðanjarðarlestakerfi borgarinnar.

Tilgangurinn með athöfnum Jacobs var að sýna fram á hve viðkvæmt þetta kerfi er í raun en sama eða mjög svipað kerfi er notað á mörgum vinnustöðum til aðgangsstýringar. Jacobs er prófessor í hönnun og sannprófun öryggiskerfa sem byggja á hugbúnaði og kennir þau fræði við Tækniháskólann í Eindhoven auk þess sem hann gegnir prófessorsstöðu við Radboud-háskólann í Nijmegen.

Breskur sérfræðingur sem London Times ræddi við sagði að ábending Hollendingsins væri þörf. Áður hefðu verið segulrendur á kortunum en nú væru þau einfaldlega borin upp að skynjara sem væri mun síðra í öryggislegu tilliti. Mifare-kortin sem notuð eru í London eru reyndar hönnun hollenska hugbúnaðarframleiðandans NXP og er hálfur milljarður slíkra korta í notkun um gervalla heimsbyggðina. Hollenska ríkisstjórnin fer þegar að ráðum Jacobs og vinnur nú að því að láta breyta öllum aðgangskortum þarlendra ríkisstarfsmanna.

CNET greindi frá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×