Innlent

Lögreglan leitar enn árásarmanna

Lögregla leitar enn tveggja ungra karlmanna sem réðust á leigubílstjóra í Garðabæ í nótt, börðu hann og hótuðu honum með hnífi.

Þeir hurfu á brott eftir að hafa rænt bílstjórann farsímanum og eitt þúsund krónum, en bílstjórinn þurfti að leita læknisaðstoðar á Slysadeild Landsspítalans, en mun ekki vera alvarlega meiddur. Mennirnir komu upp í bílinn við Hlemm og báðu bílstjórann að aka sér að 11- 11 versluninni í Garðabæ, þar sem þeir réðust á hann. Lögregla hóf þegar leit að árásarmönnunum. Grunur leikur á að mennirnir, sem líklega eru innan við tvítugt, hafi verið undir áhrifum fíkniefna.

Þegar nokkur síðustu árásarmál á leigubílstjóra á síðustu misserum eru skoðuð, kemur í ljós að árásarmennirnir hafa í flestum tilvikum verið undir áhrifum fíkniefna. Leigubílstjórar segja að yfirleitt sé hægt að koma einhverju viti fyrir drukkna farþega, sem eru með uppsteit, en að fíkniefnaneytendurnir geti verið alveg óútreiknanlegir.-




Fleiri fréttir

Sjá meira


×