Innlent

Kjartan fékk lögfræðing í mál Guðmundar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kjartan Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.
Kjartan Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.

Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, leitaði til Kjartans Magnússonar, stjórnarformanns Orkuveitunnar, eftir að hafa ítrekað beðið Guðmund Þóroddsson, fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins, um að skila gögnum af stjórnarfundum. Þetta segir Ásta Þorleifsdóttir, varaformaður stjórnar fyrirtækisins.

Ásta segir eðlilegt að leitað hafi verið liðsinnis lögfræðinga þar sem Guðmundur hafi ekki orðið við beiðni forstjórans um að skila gögnunum. „Það er mikill munur á að vera stjórnarmaður annars vegar og starfsmaður hins vegar þegar kemur að því að skila gögnum. Þó að kjörnir skili ekki endilega gögnum fyrir það kjörtímabil sem þeir sitja að þá gera starfsmenn slíkt þegar þeir láta af störfum," segir Ásta.

„Þannig að þegar forstjóri hefur ítrekað farið þess á leit við starfsmann að hann skili þessum gögnum að þá er bara sjálfsagt og eðlilegt að stíga næstu skref sem eru að láta skrifa bréf, eins og hefði verið gert í tilfelli hvaða starfsmanns sem er. Og það var sú ákvörðun sem formaður stjórnar eðlilega tók," segir Ásta. Ásta segir ekkert athugavert við þetta ferli og að ekki sé um pólitískar ofsóknir að ræða. Guðmundur hefur hins vegar áður haldið því fram að málið eigi sér pólitískar rætur. „Það sem maður skilur bara ekkert í er af hverju var ekki búið að skila þessu bara," segir Ásta.

Ásta segir að þeir lögfræðingar sem leitað hafi verið til séu lögmenn Orkuveitunnar og farið hefði verið í þetta ferli óháð því hvaða starfsmaður átti í hlut.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×