Innlent

Persónuvernd vill vernda fólk gegn nafnlausum smáskilaboðum

SB skrifar
Fjöldi fólks verður fyrir áreyti vegna nafnlausra smáskilaboða.
Fjöldi fólks verður fyrir áreyti vegna nafnlausra smáskilaboða.
Persónuvernd vill gera fólki kleyft að loka fyrir smáskilaboð sem send eru af netinu eða með númeraleynd - líkt og fólk getur blokkað ruslpóst af netinu.

"Þá má að ósekju huga að því hvort rétt sé að gera áskrifendum kleift að hafna móttöku smáskilaboðasendinga af Netinu, s.s. af heimasíðum fjarskiptafyrirtækjanna. Unnt er að senda slík skilaboð án þess að fram komi frá hverjum sendingin er. Þar sem slíkt getur valdið viðtakanda ónæði og óþægindum mætti taka þetta til athugunar, sé það tæknilega mögulegt," segir í umsögn Persónuverndar um ný lög frá Póst og fjarskiptastofnun.

Í lögunum er gert ráð fyrir að fólk geti átt þess kost að synja móttöku símtala þegar hringt er úr númeraleynd. Það er gert til þess að koma í veg fyrir áreyti sem af slíkum símtölum getur skapast.

Persónuvernd mælir reyndar með að hægt sé að loka fyrir hringingar úr hvaða númeri sem er - hvort sem hringt er úr leyninúmeri eða ekki. Símtöl úr venjulegu númeri geti einnig skapað ónæði.

"Þar ber að hafa í huga að þrátt fyrir að númer birtist á skjá símtækis (njóti ekki númeraleyndar) getur það verið óskráð eða skráð sem leyninúmer, auk þess sem áreitið getur verið alveg jafn íþyngjandi þrátt fyrir vitað sé hver hringir. Þá má benda á að með sífelldum hringingum er hægt að halda línu upptekinni og hugsanlegt er að einu skammtímaúrræði sem móttakandi símtals hefur sé að taka símtæki úr sambandi."

Persónuvernd gerir að endingu athugasemd við að lögin nái ekki yfir smáskilaboð sem hægt sé að senda nafnlaust af netinu af heimasíðum fjarskiptafyrirtækjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×