Innlent

Egill Jónsson alþingismaður - andlátsfregn

MYND/Alþingi

Egill Jónsson fyrrum alþingismaður og bóndi á Seljavöllum er látinn, 77 ára að aldri. Egill fæddist að Hoffelli í Nesjahreppi 14. desember 1930. Hann lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri árið 1950 og búfræðikandidatsprófi frá sama skóla 1953. Árið 1955 stofnaði Egill, ásamt eftirlifandi eiginkonu sinni, Halldóru Hjaltadóttur, nýbýlið Seljavelli í Nesjum og hófu þau þar búskap.

Egill var ráðunautur Búnaðarfélags Íslands 1954 - 1955 og síðar héraðsráðunautur Búnaðarsambands Austur-Skaftfellinga 1956 - 1980. Hann var fulltrúi á Búnaðarþingi í 41 ár frá 1954 - 1995, þá sat hann í hreppsnefnd Nesjahrepps í 20 ár 1962 - 1982.

Árið 1979 var Egill kosinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Austurlandskjördæmi, hann sat á þingi til ársins 1999 er hann lét af þingmennsku. Á Alþingi vann hann m.a. ötullega að byggðamálum, málefnum landbúnaðarins og landgræðslu. Á Alþingi sat hann m.a. í fjárlaga- og landbúnaðarnefnd og var formaður hennar um tíma.

Egill gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum, má þar nefna setu í skólanefnd Bændaskólans á Hvanneyri, stjórn Áburðarverksmiðjunnar, stjórn Búnaðarfélags Íslands, stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, stjórn Byggðastofnunar, þar sem hann var einnig formaður í fjögur ár og formaður fagráðs var hann í Landgræðslu Íslands.

Auk þess kom Egill að útgáfumálum og ritstörfum, hann sá ásamt fleirum um útgáfu bókanna Jódynur - hestar og mannlíf í Austur-Skaftafellssýslu og Jöklaveröld − náttúra og mannlíf.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×