Innlent

Gorkiy leggst að bryggju í seinasta sinn

Eftir rúmlega þrjátíu ára siglingar til Íslands lagðist rússneska skemmtiferðaskipið Maxim Gorkiy í síðast sinn að bryggju í Reykjavík í morgun.

Á þessum þremur áratugum hefur skipið flutt hingað til lands um áttatíu og fimm þúsund farþega í hundrað þrjátíu og tveimur ferðum. Við komuna til Reykjavíkur í morgun fóru fulltrúar Faxaflóahafna, Siglingastofunar og Samskipa um borð í skipið og þökkuðu áhöfninni fyrir áralangt samstarf.

Maxim Gorkiy er í eigu Rússa en þýskt fyrirtæki hefur haft það á leigu undanfarin ár. Við komuna í morgun sagði skipstjóri skipsins óvíst hvort að annað skip á vegum félagsins myndi taka við siglingum hingað en hátt olíuverð hefði sett mikið strik í reikninginn hjá fyrirtækjum sem bjóða upp á skemmtiferðasiglingar. Ljóst er að ef það dregur úr komum skemmtiferðaskipa hingað til lands hefur það talsverð áhrif þar sem tekjur af þeim eru töluverðar.

Skipið er komið nokkuð til ára sinna og óvíst hvað verður um það. Orðrómur hefur verið uppi um rússneski milljarðamæringurinn Roman Abramovich ætli sér að breyta skipinu í einkasnekkju sem notuð verði sem hótel á vetrarólympíuleikunum árið 2014.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×