Innlent

Sami þorskkvóti í ár og í fyrra

Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur heimilað veiðar á 130 þúsund tonnum af þorski á næsta fiskveiðiári sem hefst þann 1. september. Er það sama magn og í fyrra en þá var kvótinn skorinn niður um 60 þúsund tonn.

Á vef sjávarútvegsráðuneytisins kemur fram að Hafrannsóknarstofnun hafi lagt til 124 þúsund tonna kvóta af þorski en sjávarútvegsráðherra heimilar 130 þúsund tonn.

Hvað aðrar tegundir áhrærir eru breytingar ekki miklar. Aflamark í ýsu og ufsa lækkar, ýsu úr 100 þúsund tonnum í 93 þúsund tonn og ufsa úr 75 þúsund tonnum í 65. Þá er aflamark lækkað í karfa um 7 þúsund tonn, úr 57 þúsund í 50 þúsund. Um lítils háttar aukningu er að ræða í aflamarki steinbíts, humars og skötusels, en aflamark allmargra tegunda breytist ekki á milli ára. Síldveiðikvótinn verður 150 þúsund tonn eins og í fyrra en Hafrannsóknarstofnun hafði lagt til 131 þúsund tonna afla.

„Framhjá því verður ekki litið að hinar litlu aflaheimildir í þorski munu hafa meiri áhrif á næsta fiskveiðiári en á því yfirstandandi. Þessu veldur meðal annars að geymsla aflamarks í þorski frá síðasta fiskveiðiári kom mönnum til góða á núverandi fiskveiðiári. Því verður ekki að heilsa á næsta fiskveiðiári. Geymslurétturinn eykur aðlögunarhæfni í sjávarútvegi og hagkvæmni í veiðunum, ekki síst við núverandi aðstæður. Þess vegna er að því stefnt að leggja fram frumvarp á komandi hausti sem eykur möguleika á geymslu veiðiheimilda á milli ára," segir í tilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×