Innlent

Grunur um starfsemi mansalshringa hér á landi

Vísbendingar eru um að erlendir aðilar komi í auknum mæli að skipulögðu vændi á Íslandi og grunur leikur á að sú starfsemi tengist mansalshringum einkum í Austur-Evrópu.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi og hættu á hryðjuverkum hér á landi. Þar segir enn fremur að víst þyki að íslenskir ríkisborgarar búsettir hér á landi eigi samstarf við erlenda aðila á þessu sviði skipulagðrar glæpastarfsemi. Verslun með fólk og smygl sé ábatasöm starfsemi og mat glæpahópa sé almennt að slík starfsemi feli ekki í sér mikla áhættu. Því megi ætla að vændi verði umfangsmeira hér á landi í framtíðinni.

Um mansal segir greiningardeildin að það sé talin vera sú glæpastarfsemi sem er í hvað örustum vexti nú um stundir. „Grunur um mansal á Íslandi hefur löngum verið tengdur nektardansstöðum og vændi. Ísland virðist einkum vera gegnumstreymisland hvað varðar smygl á fólki. Verslun með konur er ekki talin sérlega áhættusöm. Fyrir liggur að hún skilar miklum hagnaði. Þessi starfsemi tengist oftar en ekki fíkniefnaverslun og skjalafalsi," segir greiningardeildin.

Líkur séu á að Íslendingar muni koma í auknum mæli að mansali og í einhverjum tilvikum í samstarfi við þá útlendinga sem senda stúlkur hingað til lands til að leggja stund á vændi. Bent er á að rannsaka þurfi vel mansal og smygl á fólki og er nú unnið að sérstakri aðgerðaráætlun gegn mansali á vegum félagsmálaráðuneytis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×