Innlent

Málningu hent í hús byggingarfulltrúa

SB skrifar
Magnús Sædal er hér lengst til vinstri ásamt þeim Jóni Viðari Matthíassyni slökkviliðsstjóra og Birni Karlssyni brunamálastjóra.
Magnús Sædal er hér lengst til vinstri ásamt þeim Jóni Viðari Matthíassyni slökkviliðsstjóra og Birni Karlssyni brunamálastjóra.
„Við erum búin að kæra til lögreglu," segir Vilborg Gestsdóttir, eiginkona Magnúsar Sædals byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar. Í nótt var málningu hent í hús Magnúsar til að mótmæla framgöngu borgarinnar í umhverfisátakinu sem stendur nú yfir.

Mennirnir sem hentu málningu í húsið og krotuðu á það: 1,2 og Reykjavík - farðu í rassgat, lýsa ódæðinu á hendur sér í pósti til fjölmiðla. Þeir mótmæla því að póstar hafi verið sendir á 500 manns og dagssektum hótað ef lagfæringar á húsum og görðum hafa ekki átt sér stað fyrir 1. ágúst.

„Magnús og allir þeir aðrir sem standa á bakvið þetta átak: Takið til í ykkar óreiðuhausum og látið annað fólk í friði," segir í póstinum sem er nafnlaus.

Magnús Sædal var ekki við þegar Vísir hringdi heim til hans. Vilborg, eiginkona hans, sagði hann hafa unnið hörðum höndum við að mála yfir skemmdarverkin. „Það á að mála yfir allt krot um leið," segir Vilborg.

Hún segir dóttir sína hafa vaknað í nótt við læti í garðinum og séð fjóra menn hlaupa frá vettvangi. „Maður skilur bara ekki svona hegðun. Magnús er einungis að sinna sínum embættisskyldum," segir Vilborg.

Vísir ræddi við Magnús fyrr í dag um fegrunarátak borgarinnar. Hann minntist ekkert á skemmdarverkin á húsi sínu en sagði „...það eru alltaf einhverjir sem eru aldrei ánægðir, en í heildina eru flestir sáttir."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×