Innlent

Læknar og samninganefnd ræða áfram saman

Samninganefnd Læknafélags Íslands og samninganefnd ríkisins ákváðu á fundi sínum í dag halda áfram viðræðum um nýjan kjarasamning fyrir lækna sem starfa hjá ríkinu. Hefur samningafundur verið boðaður á fimmtudag.

Eins og fram kom í fréttum í morgun ákvað félagsfundur Læknafélagsins í gærkvöld að hafna tilboði ríkisins um liðlega 20 þúsund króna launahækkun í nýjum samningi sem yrði fram á næsta vor. Samningnefnd félagsins var falið að koma þessu á framfæri á samningafundi hjá ríkissáttasemjara í morgun en að sögn Gunnars Ármannssonar, framkvæmdastjóra félagsins og formanns samninganefndar, kom lítið út úr fundinum.

„Við ætlum þó að halda áfram að tala saman og við munum skoða ákveðna þætti og kanna hvort viðræðugrundvöllur sé varðandi þá," segir Gunnar og á þar meðal annars við þætti eins og skipulag vaktavinnu og hvíldartímaákvæði. „Þetta hafa verið erfið úrlausnarmál fyrir báða aðila en það er þess virði að skoða það og reyna að finna sameiginlegan grundvöll," segir Gunnar. Aðilarnir muni skoða þessi mál hvor í sínu lagi fram að næsta samningafundi sem boðaður hefur verið á fimmtudag.

Viljum ekki meiri raunlaunaskerðingu en aðrir

Um tilboð ríkisins, sem hljóðar upp á 20.300 krónur í flata hækkun, segir Gunnar að læknar geti ekki samþykkt það. „Við höfum farið fram á sambærilegar hækkanir og aðrir hafa fengið, þar á meðal hjá BSRB, en okkur reiknast til að að það sé um tíu prósenta hækkun að meðaltali. Við erum tilbúin að taka þátt í baráttunni við verðlagið eins og önnur félög en við viljum ekki meiri raunlaunaskerðingu en aðrar stéttir," segir Gunnar.

Hann bendir á þótt læknar séu með hæstu launatöfluna þá hafi þeir einna stystan starfsaldur. „Það er okkar skoðun að við séum með mjög hófsamar kröfur en okkur finnst ríkisvaldið afar óbilgjarnt og höfum áhyggjur af því hvert sé verið að stefna okkur," segir Gunnar enn fremur.

Félagsfundur Læknafélagsins samþykkti einnig í gær að fara að undirbúa verkfallsaðgerðir í haust ef ekki semst en Gunnar segir of snemmt að segja til um hvort af því verði. „Við munum leita allra annarra leiða en ef ríkið reynist óhagganlegt þurfum við að fara yfir stöðuna," segir Gunnar og leggur áherslu á að aðilar ræði enn saman.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×