Innlent

Vonast til að mál Ramses bæti stöðu flóttamanna á Íslandi

Nanna Hlín skrifar
Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss.
Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss.

Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss segist vonast til að mál Paul Ramses veki athygli á stöðu flóttamanna á Íslandi og að Ísland axli meiri ábyrgð á flóttamannamálum en nú sé gert.

Einar mætti á fund Allsherjarnefndar í gær sem fulltrúi Alþjóðahúss.,,Við einbeittum okkur að því að benda almennt á aðstæður hælisleitenda á Íslandi. Við vildum reyna að nota tækifærið þegar menn eru að hlusta til þess að benda á hvernig sé hægt að bæta úr aðstæðum þeirra," segir Einar.

,,Einn af þeim punktum sem við lögðum áherslu á var að fólki væri tryggð aðstoð lögmanns frá því að þau leggja inn umsókn. Í dag er það aðeins þegar Útlendingastofnun er búin að úrskurða og fólk vill kæra." Að sögn Einars er flókið ferli að sækja um stöðu flóttamanns og benti hann á mál Pauls því til stuðnings.

,,Við höfum sagt í mörg ár að okkur finnist að stjórnvöld eigi að gera meira að því að meta hvert tilvik í stað þess að túlka meginreglu samningsins svo bókstaflega og senda svo marga til baka á grundvelli Dyflinarsamningsins," segir Einar.

Hann bendir á að nánast engir möguleikar séu fyrir fólk að komast fyrst til Íslands vegna legu landsins sem Ísland hafi getað notað til að firra sig ábyrgð á hælisleitendum.

,,Ef Ísland ætlar að axla ábyrgð sína í samræmi við Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna þurfum við að taka á þessu eða fjölga kvótaflóttamönnum," segir Einar.

,,Megintilgangur Dyflinnarsamningsins er að dreifa álaginu innan Evrópu. Með því að senda fólk alltaf aftur til landanna sem þau komu fyrst til þá er verið að auka álagið á þau. Það er óumdeilanlega mikið álag á Ítalíu, Grikkland og Spán."

Hann telur að það myndi létta á þessum löndum ef Ísland gæti tekið aðeins meiri ábyrgð á hælisleitendamálum og þá væri raunar frekar verið að uppfylla Dyflinnarreglugerðina. ,,Með því að fara svona vel eftir meginreglunni þá vinnum við í raun gegn samningnum."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×