Innlent

Enginn kemst upp með að innheimta seðilgjöld

Það kemst enginn upp með að halda áfram að innheimta seðilgjöld, segir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra. Neytendastofa hafi skýra heimild til að sekta þær opinberu stofnanir sem þrjóskist við að afnema gjöldin.

Meirihluti opinberra stofnanna sem innheimta seðilgjöld ætlar ekki að hætta því eða hefur ekki tekið ákvörðun um málið þrátt fyrir að hafa enga heimild til innheimtunnar. Samkvæmt nýlegri könnun Neytendastofu eru 44 opinberar stofnanir sem hafa innheimt seðilgjöld og öll nema tvö gera það í heimildarleysi. Þar af voru 19 sem ætluðu ekki að hætta innheimtu gjaldanna.

Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu sagði í fréttum fyrir skömmu að nú væri málið í höndum viðeigandi ráðuneyta sem eigi að fara fram á að fyrirtæki og stofnanir láti af þessum lögbrotum. Viðskiptaráðherra segir málið hins vegar í höndum Neytendastofu. Það sé alveg skýrt samkvæmt lögum að Neytendastofa geti beitt stjórnvaldssektum þannig að enginn komist upp með að rukka seðilgjöld.

Björgvin skorar á stofnanir að fella niður seðilgjöldin áður en sektum verður beitt. Aðspurður hvað gerist ef menn rukki samt seðilgjald segir viðskiptaráðherra að hann voni að menn fari að lögum og láti af þessu þegar harkalegum úrræðum eins og stjórnvaldssekt sé beitt. Réttur neytandans í þessu máli sé skýr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×