Innlent

Stúlka handtekin eftir ofsaakstur

SB skrifar

Lögreglan þurfti að keyra inn í hlið bíls ungrar stúlku til að stöðva hana eftir eltingarleik allt frá Kópavogi upp í Áslandshverfi í Hafnarfirði. Vegfarendur voru í hættu þegar stúlkan ók á yfir hundrað kílómetra hraða inn í þéttbýli. Karlmaður var einnig farþegi í bílnum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hófst eftirförin við Arnarnesbrú. Stúlkan, sem er á þrítugsaldri, sinnti ekki stöðvunarmerkjum. Eltingarleikurinn barst allt inn í Hafnarfjörð og endaði á því að lögreglan þurfti að keyra á bílinn við hringtorgið efst í Áslandshverfi.

Þar var stúlkan og maðurinn tekin úr bílnum, þrýst niður í jörðina og þau handjárnuð. Bílarnir munu vera lítið skemmdir en stúlkan var flutt á slysadeild. Þar verða blóðsýni tekin til að ganga úr skugga um hvort hún hafi verið í annarlegu ástandi.

Lokað er fyrir umferð við hringtorgið á þessari stundu.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×