Skoðun

Fjögur tonn af sparifatnaði

Örn Ragnarsson skrifar um fatasöfnun Rauða krossins: 

Rauði krossinn þakkar öllum þeim sem „gáfu af sér“ laugardaginn 22. nóvember í Sparifatasöfnun félagsins. Landsmenn sýndu hug í verki, rýmdu til í skápum og mættu með fulla poka af sparifatnaði á tiltekna móttökustaði. Starfsfólk Vífilfells gerði úr átakinu sinn eigin fjölskyldudag og safnaði innan fyrirtækisins. Allir sem komu að sparifatasöfnuninni, eiga okkar bestu þakkir skildar!

Tæp fjögur tonn af sparifatnaði söfnuðust. Minnst safnaðist af barnafötum og bendum við fólki á að enn er hægt að gefa spariföt beint til Fatasöfnunar Rauða krossins að Skútuvogi 1 í Reykjavík.

Fyrir rúmum mánuði var þriðja Rauða kross verslunin opnuð á Laugavegi 116 rétt hjá Hlemmi. Þar fer nú einnig fram (spari-) fataúthlutun á höfuðborgarsvæðinu á miðvikudögum milli kl. 10 og 14 og er gengið inn af bílastæði Grettisgötumegin. Auk nýju verslunarinnar eru Rauða kross verslanir á Laugavegi 6 í Reykjavík og Strandgötu 24 í Hafnarfirði.

Opnunartímar búðanna tveggja á Laugavegi eru mán.-fös. 10-18, lau. 12-16 og á Strandgötu mán.-fös. 12-18 en lokað á laugardögum.

Sextíu sjálfboðaliðar skiptast á að standa vaktina í búðunum þremur, sjá um úthlutun á fatnaði og flest það sem fellur til við reksturinn. Á höfuðborgarsvæðinu sér Rauði krossinn, í samstarfi við Sorpu, um söfnun á fatnaði alla daga ársins. Um tólf sjálfboðaliðar sjá um að taka á móti og flokka hluta fatnaðarins sem safnað er í Fatasöfnun Rauða krossins. Þessi fatnaður fer síðan í verslanirnar til sölu, úthlutunar og einnig til nauðstaddra erlendis, en stór hluti af fatnaðinum er seldur óflokkaður beint til útlanda. Allur hagnaður af sölu fatnaðarins rennur í Hjálparsjóð Rauða kross Íslands.

Sjálfboðaliðar í verslunum og við fataúthlutun Rauða krossins eru komnir í jólaskap og hlakka til að sjá sem flesta fyrir jólin – svo „Siggi fái síðar buxur og Solla bláan kjól“.

Höfundur er verkefnastjóri Fatasöfnunar Rauða krossins.




Skoðun

Sjá meira


×