Innlent

Magnús Þór nýtur stuðnings miðstjórnar frjálslyndra

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Á miðstjórnarfundi Frjálslynda flokksins sem lauk í gærkvöldi var samþykkt ályktun til stuðnings bæjarmálafélagi flokksins á Akranesi og núverandi oddvita flokksins þar, Magnúsi Þór Hafsteinssyni.

Segir í ályktuninni að miðstjórn flokksins lýsi fullum stuðningi við Magnús í störfum hans á Akranesi. Ríkisstjórnin hafi farið þess á leit við Akranesbæ að sveitarfélagið taki á móti allt að 60 flóttamönnum frá Írak á næstu tveimur árum. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Hafi Magnús sinnt skyldum sínum af kostgæfni með því að benda réttilega á slælegan undirbúning málsins af hálfu ríkisstjórnarinnar. Jafnframt hafi spurningar hans viðvíkjandi málinu verið eðlilegar í ljósi þess hve stórt málið sé og viðamikið. Að lokum segir að miðstjórn Frjálslynda flokksins harmi að viðbrögð Sjálfstæðisflokksins vegna þessa hafi orðið með þeim hætti að flokkurinn kaus að binda endi á meirihlutasamstarf við Frjálslynda og óháða á Akranesi.

„Ég er mjög þakklátur fyrir yfirlýsinguna, hún var mjög afgerandi. Allur listinn á Akranesi var áður búinn að lýsa yfir fullum stuðningi og núna miðstjórnin og þingflokkurinn. Svo ég er með flokkinn á bak við mig. Það var alveg augljóst á þessum langa og stranga miðstjórnarfundi í gær,“ sagði Magnús í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×