Innlent

Vekur athygli að pólitískir samherjar Ólafs F. eru ráðnir

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

„Þetta er svo sem algjörlega nýtt og ég veit ekki hvernig þetta er til komið en auðvitað vekur það athygli ef allir pólitískir samherjar Ólafs eru ráðnir inn á skrifstofuna hans," sagði Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi, inntur álits á ráðningu Svanlaugar Jóhannsdóttur sem ráðin hefur verið í sumarstarf sem verkefnisstjóri á skrifstofu borgarstjóra.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í morgun skipaði Svanlaug annað sætið á eftir Jakobi Frímanni Magnússyni á lista Íslandshreyfingarinnar í Suðvesturkjördæmi fyrir þingkosningarnar í fyrra.

„Það var auglýst eftir verkefnisstjóra á skrifstofu borgarstjóra um síðustu áramót og fjöldi mjög hæfra umsækjenda sótti þar um. Annars þekki ég svo sem ekki málavöxtu. Ég er ekki í aðstöðu til þess að fella einhverja stóra dóma en þetta vekur svipaðar spurningar og áður um það hvernig staðið er að því að manna skrifstofurnar og stöðurnar næst Ólafi," sagði Dagur enn fremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×