Innlent

Hættir sem formaður BGS vegna deilna innan stjórnar

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.
Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar. MYND/E.Ól

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, hefur látið af formennsku hjá Bílgreinasambandinu vegna deilna um markaðsaðferðir Heklu og vegna þess að meirihluti stjórnar sambandsins hafnaði tillögu hans um að koma á fót siðanefnd.

Í tilkynningu frá Agli segir að stofnun siðanefndar hafi verið grundvallaratriði í stefnumótun hans sem formanns BGS en hann hafi lagt áherslu á aukna fagmennsku innan sambandsins. „Ég tel að stofnun siðanefndar Bílgreinasambandsins sem starfa myndi eftir sérsniðnum siðareglum þess yrði án vafa sambandinu og neytendum til hagsbóta.

Að mínu mati er siðanefnd einn mikilvægasti þátturinn í því að ályktun aðalfundar frá 3. apríl sl. um bætta viðskiptahætti komist í framkvæmd. Á stjórnarfundinum 26. maí var tillögu minni að undirbúningi stofnunar siðanefndar hafnað af meirihluta stjórnarinnar," segir Egill.

Þá segir hann ástæðuna fyrir afsögn sinni ekki síst vantrausttillögu sem tveir stjórnarmenn lögðu fram vegna þeirrar ákvörðunar Egils að taka strax til umfjöllunar í stjórn alvarlegt kvörtunarbréf frá Toyota á Íslandi. Það sneri að fréttamannafundi Heklu þar sem kynnt var átak gegn verðbólgu að viðstöddum forsvarsmönnum vinnumarkaðarins. Deilt hefur verið um eðli hans. 

Í tilkynningu Egils segir að Brimborg segi sig ekki úr Bílgreinasambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×