Innlent

Hvetja til varðveislu Hallargarðsins

Fríkirkjuvegur 11.
Fríkirkjuvegur 11. MYND/Róbert Reynisson

Á framhaldsstofnfundi Hollvina Hallargarðsins sem haldinn var í gær var samþykkt að hvetja borgarstjórn Reykjavíkur til að vernda Hallargarðinn í sem upprunalegastri mynd og tryggja að hann verði óskertur og ætíð opinn almenningi.

Á fundinum var kynnt tillaga að kaupsamningi milli borgarinnar og Novators um Fríkirkjuveg 11 og þær breytingar á Hallargarðinum sem hann hefur í för með sér, en samningurinn verður afgreiddur í borgarstjórn í maí. Þetta segir í fréttatilkynningu frá hollvinunum. Enn fremur segir:

„Þorleifur Gunnarsson borgarfulltrúi kynnti samningsdrögin og sagði mikið ósamræmi milli texta þeirra og teikninga sem þeim fylgdu. Samson B. Harðarson lektor og landslagsarkitekt rakti sögu Hallargarðsins og lagði áherslu á að garðurinn væri fyrsti nýklassíski almenningsgarður landsins og einstakur í sinni röð. Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins, fjallaði um þjóðminjalög og hlutverk fornleifaverndar. Að loknum umræðum voru hollvinasamtökin formlega stofnuð, þeim settar samþykktir og stjórn kjörin. Stofnfélagar eru ríflega eitt hundrað talsins.

Markmið Hollvina Hallargarðsins eru: Að vernda Hallargarðinn og færa hann í það horf sem hann var hannaður 1953 - 1954; að hlúð verði að fornminjum í og við Hallargarðinn svo sem hestagerðinu, tröðunum og múrnum umhverfis; að tryggja að allt svæðið verði óskert og ætíð opið almenningi.

Allir landsmenn sem styðja markmið samtakanna og skrá sig í samtökin geta orðið Hollvinir Hallargarðsins. Í stjórn voru kjörnir: Auður Sveinsdóttir, Erla J. Þórðardóttir, Heimir B. Janusarson, Katrín Fjeldsted, Samson B. Harðarson, Sólveig Arnardóttir, Þorgrímur Gestsson. Varamenn: Vésteinn Valgarðsson, Júlíana Gottskálksdóttir og Jón H. Björnsson.

Ályktun fundarins er svohljóðandi:

Stofnfundur Hollvina Hallargarðsins 29. apríl 2008 hvetur borgarstjórn Reykjavíkur til að vernda Hallargarðinn í sem upprunalegastri mynd og tryggja að hann verði óskertur og ætíð opinn almenningi.

Hallargarðurinn er einn fyrsti sérhannaði almenningsgarður borgarinnar og einstakur meðal garða í Reykjavík. Hallargarðurinn er órjúfanlegur hluti af miðborgarmyndinni og menningarsögunni. Því ber borgaryfirvöldum að varðveita garðinn þannig að komandi kynslóðir fái notið hans á þann hátt sem hugmyndin var í upphafi til útivistar, leikja og samkomuhalds.

Þá hvetur fundurinn borgarstjórn til að hlú að fornminjum í og við Hallargarðinn svo sem hestagerðinu, tröðunum og múrnum umhverfis."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×