Innlent

Segist leggja sitt af mörkum til að leysa deilu

MYND/Auðunn

Guðlaugur Þór Þórðarssson heilbrigðisráðherra sagðist á Alþingi í dag myndu leggja sitt af mörkum til þess að leysa deilu stjórnenda Landspítalans og um hundrað skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga sem sagt hafa upp og ganga út á miðnætti. Hann fundaði í dag með hjúkrunarfræðingum.

Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, sagði við utandagskrárumræðu að alvarleg staða blasti við og neyðarástand myndi skapast ef hjúkrunarfræðingar hyrfu úr sínum stöfum. Benti hún að mikill óróleiki hefði verið innan Landspítalans vegna áforma sjálfstæðismanna um miklar breytingar í heilbrigðismálum. Benti Siv á að með vaktabreytingum hjá hjúkrunarfræðingum væri verið að skerða kjör þeirra og það stangaðist á við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Þar kæmi fram að minnka ætti óútskýrðan launamun kynjanna og bæta laun kvennastétta.

Sagði hún að ef uppsagnirnar gengju eftir gæti enginn tekið við störfum þeirra og biðlistar myndu hlaðast upp og spurði hún ráðherra hversu lengi hann gæti verið án þessara 100 hjúkrunarfræðinga. Spurði hún enn fremur hvort ráðherra hygðist gefa út yfirlýsingu til þess að ná hópnum til baka og taldi sjálf ráðherra verða að gera það.

Guðlaugur Þór Þórðarson sagði erfiða stöðu komna upp hjá mikilvægum starfsmönnum. Deilur um kaup og kjör væru ekki hjá ráðherra og heldur ekki vaktamál að öllu jöfnu en hann hefði í gær og í dag fundað með aðilum málsins. Hér væri ekki um sparnaðarráðstöfun að ræða heldur endurskipulag vakta.

Stjórnendur spítalans hefðu viljað frestað breytingunum um fimm mánuði og finna nýjar útfærslur í samvinnu við starfsmenn og honum fyndist það ekki hafa komið fram nógu skýrt. Fagnaði hann því að geislafræðingar hefðu frestað uppsögnum sínum um mánuð og sagðist myndu leggja sitt af mörkum til þess að leysa þessa deilu. Sagðist hann hafa átt góðar viðræður um hjúkrunarfræðinga í dag en nauðsynlegt hefði verið að skipuleggja viðbrögð við uppsögnunum og verið væri að undirbúa viðbragðsáætlun. Vonaðist hann til þess að ásættanleg lending fengist í málinu og til uppsagnanna kæmi ekki.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar vísuðu ábyrgðinni á ástandinu á hendur ráðherra og var bent á að neyðarástand myndi skapast sem hefði áhrif á aðrar sjúkrastofnanir í landinu. Bæta þyrfit kjör hjúkrunarfræðinga og starfsaðstæður þeirra. Jafnframt lýstu allir þeir sem tóku til máls áhyggjum af ástandinu og vonuðust til að deilurnar leystust.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×