Innlent

Vinna hefst brátt við niðurrif vararafstöðvarinnar í Elliðaárdal

Framkvæmdir við niðurrif gömlu vararafstöðvarinnar í Elliðaárdal hefjast í haust. Kostnaður við að rífa húsið hleypur á tugum milljóna króna.

Varastöðin í Elliðaárdal hefur staðið nánast auð undanfarin tuttugu ár. Húsið var í eigu Landsvirkjunar en var fært Reykjavíkurborg að gjöf í byrjun þessa árs. Samkvæmt samkomulagi skuldbindur Reykjavíkurborg sig til að rífa og fjarlægja stöðina og ganga frá lóðinni sem útivistarsvæði

Til stóð að bjóða verkið út í vor. Fljótlega varð þó ljóst að ekki tækist að rífa húsið fyrir sumarið þar sem framkvæmdir sem þessar eru ekki leyfðar meðan lax er í Elliðaánum. En kostnaðurinn sem fylgir niðurrifi er umtalsverður.

Kostnaðurinn skýrist meðal annars af því hversu rammgert þetta hús er auk þess sem nokkurt magn af asbesti er í klæðningum hússins. Enn er einhver vélbúnaður í húsinu og er það í athugun hvort hægt sé að selja hann erlendis og er einkum horft til þróunarlandanna í því samhengi.

Ýmsar hugmyndir hafa kviknað í gegnum tíðina um hvað skuli gera við stöðina sem hugsanlega gæti hýst einhvers konar menningarstarfsemi. Húsið er byggt í svokölluðum funkísstíl og hafa nokkrir arkitektar lýst yfir áhuga sínum til að endurbyggja húsið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×