Innlent

Fartölvu með mastersritgerð stolið af japönskum stúdent við HÍ

Steinþór Helgi Arnsteinsson skrifar
Fartölva af þeirri gerð sem stolið var af Jun.
Fartölva af þeirri gerð sem stolið var af Jun.

Fartölvu var stolið af japanska stúdentnum Jun Morikawa fyrir utan HÍ á dögunum. Tölvan inniheldur mastersritgerð Jun sem hann hugðist skila í byrjun september. Mikil vinna er fyrir bí ef Jun endurheimtir ekki fartölvuna en hann ætlar eftir sem áður að ljúka mastersnámi sínu þrátt fyrir áfallið.

Jun hefur búið hérlendis í sjö ár og stundað nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur unnið að mastersritgerð sinni frá því á síðasta ári. „Að kvöldi 18. júlí var ég staddur niðri í háskóla að sinna ákveðnum erindum tengdum ritgerðinni minni og lagði bílnum mínum fyrir utan Odda. Þegar ég hafði lokið erindum mínum snéri ég aftur út í bíl en mér til mikillar skelfingar sá ég að búið var að brjótast inn í bílinn og stela ferðatölvunni minni sem innihélt mastersritgerðina mína og margar aðrar persónulegar upplýsingar sem eru mér ómetanlegar," útskýrir Jun.

Klárar ekki á réttum tíma

Jun segir að hann hafi einhver afrit af ritgerðinni en gagnatapið er samt sem áður gríðarlegt. Jun gerir ekki ráð fyrir að geta skilað ritgerðinni á tilsettum tíma fái hann ekki tölvuna aftur. Hann er samt sem áður ákveðinn í að ljúka námi sínu hérlendis og er strax byrjaður að vinna aftur að ritgerðinni. „Stór hluti lífs míns er samt horfinn."

Háskólinn getur lítið hjálpað til þegar atvik af þessu tagi ber að garði en Jun hefur einnig haft samband við lögreglu. „Þeir sögðu mér að þeir hafi orðið varir við tölvuna á netinu en hún var eingöngu tengd við eitthvað þráðlaust net í mjög stuttan tíma og gátu því ekki rakið hana," segir Jun.

Ferðatölva Jun er tveggja ára gömul Toshiba Satelite með raðnúmerið 17261931Q. Jun lofar veglegum fundarlaunum hverjum þeim sem getur komið með gagnlegar upplýsingar sem að leiða til þess að hann fái tölvuna aftur upp í hendurnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×