Erlent

Harðlínumenn í Ísrael vilja kosningar

Ehud Olmert, fráfarandi forsætisráðherra Ísrael.
Ehud Olmert, fráfarandi forsætisráðherra Ísrael.

Harðlínumenn í ísraelsku stjórnarandstöðunni krefjast þess nú að efnt verði til kosninga þegar í stað. Það gæti orðið til þess að helsti haukurinn í Likud-bandalaginu, Benjamin Netanyahu, komist aftur til valda.

Það var ákvörðun Ehuds Olmerts, forsætisráðherra, um að láta af embætti sem gaf harðlínumönnunum færi á að krefjast nýrra kosninga. Þeir hafa eflst og magnast á meðan flokkur Olmerts virðist vera í uppnámi og óreiðu í kjölfar afsagnar hans.

Kaldhæðni örlaganna ræður því að Benmjamin Netanyahu, sem var grunaður um spillingu í sinni ráðherratíð rétt eins og Olmert núna, virðist nú fremstur meðal jafninga í Likud.

Í flokki Olmerts - sem var stofnaður af Ariel Sharon fyrir þremur árum - eru Tzipi Livni, utanríkisráðherra, og Shaul Mofaz, fyrrum formaður ísraelska herráðsins.

Mofaz hvatti til þess á valdatíma sínum í hernum þegar seinni intifadah-uppreisnin stóð sem hæst, að sjötíu Palestínumenn yrðu drepnir á degi hverjum. Þessar upplýsingar komu fyrst fram fyrir þremur árum í bók eftir tvo kunna ísraelska blaðamenn og þetta hefur verið rifjað upp nú.

Önnur fullyrðing í þessari bók hefur einnig verið rifjuð upp síðustu dægrin - sem sé sú að Ariel Sharon hafi ákveðið að leggja niður tilteknar gyðingabyggðir í Palestínu til að beina athyglinni frá spillingarmálum sem hann stóð sjálfur frammi fyrir. Sharon lifir enn meðvitundarlaus í öndunarvél á sjúkrahúsi í Ísrael.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×