Erlent

Voðaverk framin í Kenýa

Mwai Kibaki og Raila Odinga mynduðu þjóðstjórn fyrr á árinu.
Mwai Kibaki og Raila Odinga mynduðu þjóðstjórn fyrr á árinu.

Bandarísk mannréttindasamtök hafa hvatt til þess að vopnasölubann verði sett á Kenya vegna manndrápa og voðaverka hersins í ættbálkadeilum í vesturhluta landsins. Breska varnarmálaráðuneytið íhugar að stöðva þjálfun kenýskra hermanna sem sakaðir eru um aðild að málinu.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu samtakanna Human Rights Watch. Þar segir að síðan í mars hafi kenýski herinn drepið tugi karla og pyntað hundruð til viðbóta í aðgerðum gegn hópi fólks vestast í landinu sem mannskæðar deilur hafa staðið um jarðnæði.

Þessi voðaverk eru unnin í hlíðum fjallsins Elgon, skammt frá landamærum Kenya og Uganda. Þar hafa heimamenn slegist um land í rúm tvö ár og hafa manndráp verið algeng á báða bóga. Um hundrað þúsund manns hafa neyðst til að flýja heimili sín það sem af er árinu.

Þarna fór allt í bál og brand eftir að stjórnvöld fóru að flytja landlaust fólk úr nágrenninu inn á svæðið og úthluta því jarðarskikum sem heimamenn höfðu ráðið og töldu land forfeðra sinna. Herskáir bændur stofnuðu með sér vígasveitir og hófu ofsóknir á hendur aðkomufólkinu. Fyrr en varði lágu rúmlega 600 manns í valnum og fjölmargir voru pyntaðir - af sumum voru skorin eyrun, munnarnir á öðrum saumaðir saman. Þá var herinn var sendur inn á svæðið og hóf víðtækar handtökur ungra karla sem voru pyntaðir til að segja til félaga í vígasveitunum. Margir sáust aldrei framar en þeir sem sluppu sögðu hroðalegar sögur af meðferðinni hjá hernum.

Rauði krossinn í Kenya hefur einn haft óskertan aðgang að fórnarlömbum þessara átaka og hefur séð fólki þar fyrir mat og vatni og læknisaðstoð. Á þriggja vikna tímabili eftir að herinn fór inn á svæðið fengu um 1400 manns læknishjálp hjá Rauða krossinum.

Rétt er að taka fram að þessi átök eru í engum tengslum við uppþotin sem kom til eftir kosningarnar í Kenya um síðustu áramót og eru bundin við svæðið í kringum Elgon fjall. Ættbálkadeilur eru raunar algengar í Kenya - og fleiri Afríkulöndum - og snúast oftar en ekki um yfirráð yfir ræktarlandi og eiga sér oft rætur í nýlendutímanum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×